Bókahúsið er frumlegt og skemmtilegt hlaðvarp í umsjón Sverris Norland. Þar ræðir Sverrir ekki einungis við rithöfunda um nýjustu verk þeirra heldur spjallar einnig við hönnuði, bóksala, markaðsfólk, ritstjóra, sérfræðinga í hljóðbókargerð… Það krefst nefnilega samvinnu ótal handa að koma vönduðum bókum í til lesenda.
Tíundi þáttur
Í tíunda þætti segir Hallgrímur Helgason frá öðru bindinu í Segulfjarðarepík sinni um síldarárin miklu, 60 kíló af kjaftshöggum, og talar almennt um skrif, lestur og listsköpun. Hann segist vera að gæla við að skrifa heilan „sextett“ af Segulfjarðarbókum. Áslaug Jónsdóttir, Ólafur Gunnar Guðlaugsson og Rut Guðnadóttir komu svo í „Kryddsíld Bókahússins“, hámuðu í sig síld og kæstan dreka og ræddu skrímsli, furður og yfirnáttúrulegheit í barna- og unglingabókum. Öll voru þau að senda frá sér nýjar bækur, Áslaug skrímslabókina Skrímslaleikur, Ólafur Gunnar ungmennasöguna Ljósberi og Rut Guðnadóttir ungmennabókina Drekar, drama og meira í þeim dúr.
21/12/2021 • 54 minutes, 26 secondes
Níundi þáttur
Gestir Sverris í níunda þætti eru Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir sem gaf á dögunum út hina hugljúfu og ákaflega vel skrifuðu minningasögu Ilmreyr; Hólmfríður Matthíasdóttir, oft kölluð Úa, sem er útgáfustjóri Forlagsins og hugar vakin og sofin að því að ilmandi nýjar bækur rati til landsmanna; loks leit inn í Bókahúsið Gunnar Theódór Eggertsson sem skrifað hefur fyrsta bindið í Furðufjalli, skemmtilegri ævintýrasögu fyrir krakka – fyrsta bindið nefnist Nornaseiður.
17/12/2021 • 1 heure, 23 secondes
Áttundi þáttur
Gestir Sverris í áttunda þætti eru Eliza Reid, sem hefur skrifað hina áhugaverðu og skemmtilegu Sprakkar, bók um íslenska kvenskörunga samtímans; Benný Sif Ísleifsdóttir sem rabbaði um ógleðiskók, sveitaböll og afar líflega skáldsögu sína Djúpið; loks skaust Sverrir í ræktarsal Bókahússins og svitnaði þar ærlega á hamstrahjóli ásamt hinum síhressu kynningar- og markaðsstýrum Forlagsins, þeim Guðrúnu Norðfjörð og Emblu Ýri Teitsdóttur, sem ræddu fjölbreytileg störf sín við að koma bókum Forlagsins til lesenda úti um land allt.
10/12/2021 • 1 heure, 6 minutes, 32 secondes
Sjöundi þáttur
Gestir Sverris í í sjöunda þætti Bókahússins eru tvíeykið taumlausa Valgerður Benediktsdóttir og Kolbrún Þóra Eiríksdóttir sem eru potturinn og pannan í réttindastofu Forlagsins; Þorgrímur Þráinsson sem miðlar sinni skemmtilega hvetjandi og jákvæðu lífsspeki í Verum ástfangin af lífinu og sendir einnig frá sér ungmennabókina Tunglið, tunglið taktu mig nú í haust; loks reka inn nefið hin hæfileikaríku systkini Sigrún Eldjárn og Þórarinn Eldjárn en þau sendu frá sér myndskreytta ljóðabók, Rím og Roms fyrr á árinu, auk þess Sigrún á svo barnabókina Rauð viðvörun í jólabókaflóðinu og Þórarinn smásagnasafnið Umfjöllun. Fjörugur og fjölbreyttur þáttur!
03/12/2021 • 1 heure, 20 minutes, 16 secondes
Sjötti þáttur
Sverrir Norland leiðir gesti um töfraveröld Bókahússins. Gestir hans í sjötta þætti eru Eiríkur Örn Norðdahl sem var að gefa út stórsnjalla skáldsögu sem nefnist Einlægur Önd; ljóðskáldin mælsku Eydís Blöndal og Þórdís Helgadóttir sem sendu á dögunum frá sér ljóðabækurnar Ég brotna 100% niður (Eydís) og Tanntaka (Þórdís); og loks hinn andríki Sævar Helgi Bragason, einnig þekktur sem Stjörnu-Sævar, en hann gaf nýlega út léttlestrarbókina Sólkerfið og ferðaðist af því tilefni vítt og breitt um víðáttur alheimsins með Sverri. Það er líf og fjör í Bókahúsinu þessa vikuna.
26/11/2021 • 1 heure, 11 minutes, 52 secondes
Fimmti þáttur
Sverrir Norland er gestgjafi í Bókahúsinu. Gestir hans í fimmta þætti eru Eiríkur Bergmann, sem ræddi nýja bók sína Þjóðarávarpið í stórfróðlegu spjalli sem snerti á þjóðernishugmyndum, popúlisma, upplýsingaóreiðu og ótal öðru; Linda Ólafsdóttir teiknari og Margrét Tryggvadóttir rithöfundur en þær sendu nýlega frá sér hið fallega samvinnuverkefni Reykjavík barnanna auk þess sem Margrét gaf fyrr á árinu út verðlaunabókina Sterk; loks ræddi Elín Edda Pálsdóttir, verkefnastjóri hjá Forlaginu, við Sverri um þau fjölmörgu horn sem hún hefur í að líta á kontórnum, m.a. um þau sjónarmið sem ráða för þegar velja á erlendar bækur til útgáfu. Fjölbreyttur og skemmtilegur þáttur!
19/11/2021 • 1 heure, 22 minutes, 5 secondes
Fjórði þáttur
Sverrir Norland leiðir hlustendur um undraveröld Bókahússins. Gestir hans í fjórða þætti eru Hildur Knútsdóttir, sem hræddi úr Sverri líftóruna með nýrri hrollvekju sinni, Myrkrið á milli stjarnanna; Sindri Freyr Steinsson, sem er sérlegur hljóðbókari Forlagsins og ræddi af áhuga og þekkingu um hljóðbækur sem njóta sívaxandi vinsælda þessi misserin; loks leit inn í Bókahúsið Snæbjörn Arngrímsson, sem er margreyndur útgefandi og svolítið þjakaður rithöfundur sjálfur, að eigin sögn, en hann var að botna barnabókaþríleik sinn með hinni leikglöðu og skemmtilegu Handbók gullgrafarans. Stórskemmtilegur og fjölbreyttur þáttur!
12/11/2021 • 55 minutes, 21 secondes
Þriðji þáttur
Gestir Sverris Norland í þriðja þætti Bókahússins eru þau Sigrún Pálsdóttir, sem sendir í haust frá sér skáldsöguna Dyngju, og Haukur Ingvarsson, sem gaf á dögunum út ljóðabókina Menn sem elska menn; í heimsókn kom einnig Anna Hafþórsdóttir, sem sló í gegn fyrr á árínu með skáldsögunni Að telja upp í milljón; loks litu til Sverris glæpadrottningarnar Lilja Sigurðardóttir og Jónína Leósdóttir. Nýjasta bók Lilju nefnist Náhvít jörð og splunkuný bók Jónínu nefnist Launsátur.
05/11/2021 • 1 heure, 13 minutes, 57 secondes
Annar þáttur
Leiðsögumaður og gestgjafi hlustenda í Bókahúsinu er Sverrir Norland.
Gestir hans í öðrum þætti Bókahússins eru Emilía Erla Ragnarsdóttir, bókahönnuður hjá Forlaginu; Rán Flygenring, teiknari og rithöfundur, og Gunnar Helgason, rithöfundur og leikari, en þau voru að senda frá sér tvær sprúðlandi fjörugar bækur, Bannað að eyðileggja og Drottningin sem kunni allt nema…; loks settist Einar Kárason með Sverri út í bakgarð við Bókahúsið og ræddi við hann um nýjustu skáldsögu sína, hina áhrifamiklu Þung ský, en ræddi einnig af innlifun um feril sinn, sköpunarstarfið og matarvenjur fjölskyldu sinnar sem er óvenju skáldhneigð.
29/10/2021 • 1 heure, 27 secondes
Fyrsti þáttur
Gestir Sverris í fyrsta þætti Bókahússins eru Halldór Guðmundsson, sem segir okkur frá bók sinni Sagnalandinu, ríkulega myndskreyttri hringferð um merka bókmenntastaði á Íslandi, og Fríða Ísberg og Ingólfur Eiríksson, sem voru bæði að senda frá sér fyrstu skáldsögur sínar, Merkingu og Stóru bókina um sjálfsvorkunn. Þau líta í heimsókn ásamt ritstjóra sínum, Sigþrúði Gunnarsdóttur, sem hefur, á 22 ára ferli, ritstýrt um þúsund bókum. Geri aðrir betur.